Af hverju er portrett ljósmyndun ástríðan mín?

Mig langar að segja ykkur aðeins frá því afhverju ég held ég hafi svona mikla ástríðu fyrir portrett ljósmyndun, og hvernig ég skilgreini hana.

Fyrir mér gengur portrett ljósmyndun út á að skapa tenging við manneskjuna sem ég er að taka mynd af. Ég vil lýsa fólki með mynd, þannig að persónuleikinn skíni í gegn. Auðvitað viljum við öll líta sem best út á myndunum okkar, og sýna okkar bestu hliðar. En hvoru tveggja er hægt, að einlægur persónuleiki skíni í gegn og að myndin sýni okkur í sem bestu ljósi :).

Þórdís Reynis Portrett Ljósmyndari í Reykjavík.jpg

Það eru sérstaklega þrjú atriði sem eru mér eðlislæg, og tengjast beint mínum óbilandi áhuga á portrett ljósmyndun.

1. Forvitni og þörf fyrir tengingu

Ég hef mikla þörf fyrir að tengja, hvort sem það er við fullorðið fólk, smábörn eða dýr. Ég er mikil félagsvera, læt mig aðra varða og hef mikinn áhuga á að kynnast alskonar fólki. Svo er ég bara forvitin, og það er svo gaman að kynnast fólki. Það kemur manni oftast svo skemmtilega á óvart.

Tengingu má skapa með samtali við persónuna, en það þarf ekki endilega. Það má sýna áhuga og skapa tengingu án þess að tala. Þetta á sérstaklega við þegar myndir eru teknar af ungabörnum, og dýrum.

Þórdís Reynis Ljósmyndari í Reykjavík_barnamyndataka.jpg

2. Gefandi að lyfta öðrum upp

Á síðustu árum hef ég markvisst tekið eftir því hvað það gefur mér mikið að hjálpa öðrum og sjá þau blómstra. Á daginn er ég verkfræðingur og verkefnastjóri í vöruþróun hjá Marel, og þykir ekkert skemmtilegra en að styðja við og sjá samstarfsfólk mitt blómstra og ná árangri.

Góð portrett mynd getur verið mjög valdeflandi (e. empowering) sem og myndatakan sjálf. Það er svo gaman að heyra þegar fólk sér sjálft sig í myndinni og er ánægt með útkomuna.

Þórdís Reynis Portrett Ljósmyndari í Reykjavík.jpg

Ég hef einnig tekið að mér ýmis sjálfboða verkefni t.d. fyrir Kattholt, þar sem ég tek portrett af kisum til að hjálpa þeim að finna framtíðarheimili. Mér þykja nefnilega myndir af dýrum ekki síður portrett myndir, því þarna eru skemmtilegir og fjölbreyttir persónuleikar, þó þau séu málleysingjar.

3. Þörf fyrir að skapa

Ég hef alla tíð verið mjög skapandi, og listræn. Teiknaði mikið og fór á alskonar myndlistanámskeið, og geri enn þann dag í dag. Mér þykir einmitt líka mjög gaman að teikna andlit og fólk, sem hefur gefið mér enn frekari innsýn inn í portrett ljósmyndun. Þar er maður líka að vinna með ljós og skugga, form og innrömmun. Sama mótíf, önnur nálgun.

Þetta gefur ykkur örlitla innsýn inn í hvaðan ég kem og hvers vegna ég elska að taka portrett myndir.


Previous
Previous

Barna ljósmyndun - Þrjú lykilatriði

Next
Next

Ungbarna ljósmyndun - Mín nálgun