Ungbarnamyndataka - Við hverju má búast og undirbúningur
Það er gott að vita hvað er framundan þegar farið er í myndatöku til að þess að vera sem best undirbúin. Þá líður okkur líka vel fyrir og í myndatökunni sjálfri.
Mig langar að segja frá því hvernig ungbarnamyndatökur fara fram og hvernig er best að undirbúa sig fyrir þær.
Myndatakan
Í myndatökunni er ungabarnið aðalatriðið, en ekki síður mikilvægt að ná myndum með systkinum og foreldrum. Því skipti ég myndatökunni aðeins upp og bæti foreldrum og systkinum inn á myndir eftir ákveðnum strúktúr. Stóru póstarnir eru eftirfarandi:
Ungabarnið
Ég tek alltaf myndir af barninu einu og sér. Það fer aðeins eftir því hvað það er gamalt hvaða uppstillingu við notum, en ég reyni alltaf að ná nærmynd, mynd af því öllu og svo smáatriðum eins og af sætum tásum.
Foreldrar
Mér þykir ótrúlega vænt um myndir sem ég á af mér lítilli með foreldrum mínum. Því finnst mér stór hluti af myndatökunni að taka mynd af ungabarninu með foreldrum þess, í sitthvoru lagi og svo saman.
Systkini
Ef að eldri systkini eru með þá geta verið ótrúlega fallegar myndir af þeim öllum saman. Hér er alltaf fókus á að ungabarnið sé öruggt og líði vel, og eldri systkinum stillt upp með það að leiðarljósi.
Fjölskyldumynd
Mér þykir líka mikilvægt að ná allri fjölskyldunni saman ef hægt er, sérstaklega með eldri systkinum.
Undirbúningur
Nokkur atriði sem skipta máli þegar verið er að undirbúa sig fyrir ungbarnamyndatöku, með eða án eldri systkinum.
Klæðnaður
Einlitur og ljós klæðnaður kemur vel út, bæði fyrir börn og foreldra, til dæmis hvítt eða drappað. Dökka liti og mynstur ætti að forðast því það getur dregið of mikla athygli frá andlitunum.
Mér þykir líka mjög fallegt þegar ungabörnin eru bara á hvítri bleyju. Taubleyja til að reyra barnið kemur líka vel út og hjálpar að róa það og veita öryggi.
Fyrir eldri systkini getur verið gott að vera komin í fötin áður, því að það getur stundum verið of mikið áreiti að koma á nýjan stað og þurfa líka að skipta um föt. Þetta minnkar flækjustig.
Taka með
Aukaföt ef upp koma slys :)
Taubleyju til að þurka ungabarninu um munninn
Ljóst teppi eða taubleyja til að reyra eða halda hita
Taka með eitthvað til að þrífa eldri börnum í framan
Dót sem getur haldið athygli barnanna eftir aldri
Snarl til samningaviðræðna við eldra systkini, eða ef ungabarnið er komið á þann aldur
Aðstaða á staðnum
Í stúdíóinu er pláss til að hengja af sér, kíkja í spegil, og setustofa fyrir fjölskylduna til að hinkra meðan að verið er að taka myndir af hinum í fjölskyldunni. Ávalllt kaffi á könnunni.
Sameiginlegt salerni er í húsinu, en auðvitað er best vegna Covid að reyna að klára klósettferðir fyrir komu í stúdíóið.
Ég er með spritt, grímur, hanska og yfirborðssótthreinsiklúta á staðnum, og við gerum auðvitað okkar besta við að halda 2 metra reglunni. Ég er með grímu allan tímann og best er að foreldrar séu það líka á meðan þeir eru ekki í mynd.
Gott að hafa í huga
Börnum líður best í myndatökunni þegar þau eru úthvíld og södd. Gott að reyna að miða bókun út frá tímasetningu sem passar við svefn yfir daginn.
Börn geta verið óútreiknanleg og dagsformið misjafnt. Ég vil að þeim líði sem best og aðlögum okkur að þeirra ástandi. Því bið ég foreldra að vera opin fyrir að spila aðeins eftir eyranu, og aðlaga væntingar eftir dagsformi barnsins, til dæmis varðandi ákveðin föt eða pósur. Markmiðið er að ná þeirra karakter á mynd af aldurstímabilinu sem þau eru á :)
Best að ljósmyndarinn stýri því hvort þurfi á aðstoð að halda við að ná athygli krílis eða eldra systkinis. Rólegt andrúmsloft og sem minnst læti róar og veitir öryggi.
Foreldrar geta því andað rólega, það er allt í lagi þó að börnin séu með smá vesen, það tekur oft smá tíma að ná tengingu og trausti milli barns og ljósmyndara. Það má taka tíma, engar áhyggjur. Höfum í huga að minnka áreitið, þá verða þau síður þreytt.
Með ofangreint í huga ætti myndatakan að vera skemmtileg upplifun fyrir fjölskylduna alla. Hlakka til að sjá ykkur í stúdíóinu.