Einfaldar & fallegar meðgöngumyndir - 6 góð ráð
Minn stíll fyrir meðgöngumyndatökur er mjög einfaldur, og tek ég allar meðgöngumyndir í stúdíóinu.
Hér eru nokkur atriði sem mér þykir virka vel og koma fallega út:
1. Tímasetning
Gott viðmið fyrir meðgöngumyndatöku er um viku 30+. Hinsvegar eru allar bumbur fallegar og ekkert að því að fara í myndatöku á öðrum tímum meðgöngu, sérstaklega núna á þessum óútreiknanlegu tímum.
2. Klæðnaður
Eins og sést á myndunum mínum, þykir mér þröngur dökkur/svartur kjótt koma mjög fallega út. Þetta dregur fram formið á bumbunni, býr til kontrast við bakgrunnin og hentar öllum óháð því hversu spéhræddar við erum :). Þessum myndum er líka auðveldara að deila með umheiminum.
Ég býð líka upp á að taka föt til skiptana, til dæmis ljósari liti eða léttari klæðnað eins og nærföt og létta sloppa. Sumum finnst gaman að eiga myndir af sér með bera bumbu, það er þó ekki nauðsynlegt.
3. Líkamsstaða
Þær líkamsstöður eða pósur sem ég vinn mest með, eiga tvennt sameiginlegt:
Þyngdin er á einum fæti, þeim sem er fjær myndavélinni, til að fá fallega fettu á bakið
Snúa líkamanum ca. 45° í aðra hvora áttina frá myndavélinni svo bumban sjáist vel
4. Hendur
Tvær klassískar staðsetningar á höndum eru:
Undir og yfir: önnur hendin er ofan á bumbunni næstum undir brjóstum, og hin undir henni. Þetta dregur ennþá meira fram formið á bumbunni.
Þríhyrningurinn: önnur hendin er lögð flöt á mjóbakið, og olnboganum aðeins stefnt aftur á bak. Þetta dregur fram fettuna á mjóbakinu á móts við bumbuna. Hún er kannski ekki náttúrulegasta stellingin, en hún kemur svo fallega út á mynd.
5. Andlit
Þrjár stöður á andlitinu eru:
Beint augnsamband í myndavélina og oftast brosandi. Þarna er gott að snúa höfðinu næstum beint að myndavél, þó að líkaminn stefni til hliðar.
Út í bláinn: Horft upp og til hliðar við myndavél. Þetta er hægt að gera alveg í prófíl, eða í 45° þannig að sjáist í bæði augu.
Niður á bumbuna. Þetta er smá áhættuatriðið því við eigum það til að beygja okkur fram og búa til undirhöku. Ég leiðbeini því verðandi mæðrum, að horfa þá beint í myndavélina, halla höfðinu mjög lítið niður og horfa svo niður - þó þær horfi kannski bara á gólfið en ekki bumbuna. Það sést ekki á myndinni :)
6. Makar & Börn
Það getur verið mjög gaman að eiga myndir með hinu foreldrinu, og líka með eldri systkinum, sjá hér dæmi um hvorutveggja.
Þegar hitt foreldrið er með, er best að það snúi beint að myndavélinni og að verðandi móðir snúi í átt að honum/henni. Þannig er auðvelt sé að leggja hönd á bumbuna, og sést vel. Því er gott að hitt foreldrið sé í ljósum klæðnaði, og móðirin í dekkri.
Vona að þetta nýtist ykkur vel á meðgöngunni ykkar.