Besti tími fyrir ungbarnamyndir
Ég fæ oft spurninguna “Hvenær sé besti tíminn til að koma í ungbarnamyndatöku?”.
Persónulega þykir mér ekki neinn einn besti tími á fyrsta ári barnsins, heldur svo margir. Nýburamyndir eru einstakar, en það getur þó margt orðið til þess að ekki næst að koma í myndatöku á þessum stutta tíma rétt eftir fæðingu. Hvað þá nú á tímum Covid þegar takmarkanir geta breyst, og við erum kannski ekki jafn örugg með að fara út úr húsi með splunku nýju krílin.
Það er þó alls ekki orðið of seint að taka myndir af barninu, því það eru svo mörg skemmtileg tímabil í lífi barnsins framundan. Hér fyrir neðan fer ég yfir helstu aldurstímabil, hvað er skemmtilegt og áskoranir fyrir hvert tímabil fyrir sig. Hvert barn er einstakt og er þetta til viðmiðunar.
Nýburamyndir - Pínulítil og einstök
Það er almennt talað um að best sé að taka nýburamyndir á fyrstu 10 dögum eftir fæðingu. Þá eru þau svo pínulítil og meðfærileg. Þau eru oftast sofandi á þessum myndum, og alveg ótrúlega falleg. Það getur verið gaman að taka myndir af þeim með fjölskyldu og eldri systkinum, og þá sést líka hvað þau eru agnar smá. Þau eru líka ekki lengi svona lítil, og því einstakt að ná myndum af þeim á þessum tíma.
Liggjandi á sama stað og sofandi meiri hluta tökunnar
Sofandi nýbura líður vel. Ef þau vakna eru þau annað hvort svöng eða eitthvað er að trufla þau.
Reynum því að halda barninu kyrru fyrir og sofandi megnið af tökunni, og ef við erum heppin í lokin er hægt að ná mynd af opnum augum. Ef þau vakna má gera ráð fyrir að það þurfi að gefa þeim og svæfa aftur, sem tekur auðvitað sinn tíma. Svo er bara allskonar sem getur hrjáð þau á þessum tíma og því eru þau óútreiknanleg. Við gefum okkur því góðan tíma í svona myndatökur.
Það er þó ýmislegt sem hægt er að gera til að stuðla að því að hlutirnir gangi vel. Svefn, hvíld, hlýtt stúdíó, rólegt andrúmsloft og svo að vera nýbúin að fá að borða. Ég skipulegg líka myndatökuna þannig að við þurfum ekki að færa barnið úr upprunalegri stöðu fyrr en alveg í lokin.
Nokkurra vikna - Augnsamband
Það sem er gaman við að taka myndir á þessu tímabili er að þau eru farin að opna augun meira og festa fókus. Það er svo fallegt að sjá glampa í litlum augum. Þau eru líka bara kyrr fyrir sem gerir myndatökuna auðvelda að því leyti. Mjög fallegar myndir af börnum á 3-8 vikna aldri þar sem þau eru sofandi eða með opin augu að horfa í myndavélina.
Ungbarnabólur & magaónot
Áskorunin á þessum tíma er að á aldrinum 2-4 vikna geta börnin fengið svokallaðar hormónabólur eða önnur útbrot í andliti. Ég leyfi mér að minnka þessar bólur í eftir vinnslunni, en það getur stundum verið mikil vinna.
Þarna er meltingin líka komin á meira skrið, og geta þau verið komin með smá magaónot.
3-6 mánaða - Bros og hlátur
Á þessum tíma er hægt að ná fram krúttlegu brosi og glettni í augum. Þau eru farin að geta reist sig upp af maganum, sem geta verið mjög fallegar myndir. Hér er hægt að ná mikilli tengingu við þau sem skín í gegn á myndunum.
Öryggið í fyrirrúmi - Farin að velta sér
Hér er komin meiri hreyfing á barnið, og því mikilvægt að hafa öryggið í fyrirrúmi, og foreldrar séu viðbúin að bregðast við á hliðarlínunni þegar þau velta sér.
6-9 mánaða - Sitjandi, tengja og spjalla
Á þessum tíma eru þau farin að geta setið, og farin að eiga meiri samskipti. Tengingin við ljósmyndarann eða foreldra er mikil og hægt að ná fram skemmtilegum svipum, húmor og hlátri.
Halda athygli og skapa tengingu
Öryggið þarf að vera í fyrirrúmi, og því foreldri alltaf á hliðarlínunni. Þetta getur þó vakið athygli barnisins þannig að það horfi ekki í eða í átt að myndavélinni. Því er gott að annað foreldri sé í markmannshönskunum og hitt sé í tengingar hlutverkinu, haldi athygli barnsins og fái það til að hlæja og spjalla. Þetta er eitt stórt samstarfsverkefni foreldra og ljósmyndara :)
9-12+ mánaða - Á ferð og flugi
Þetta eru þau orðin svo stór og sjálfstæð. Karakterinn skín í gegn, en þau eru líka síður tilbúin í að láta stjórna sér. Þessar myndatökur einkennast að því að barnið er oftast við stýrið, því það er komið á svo mikla ferð, hvort sem það er skríðandi, farin að standa við eða ganga og hlaupa. Hér koma fram allskonar skemmtilegir grallarasvipir.
10 mánaða í jólakjólnum
Óútreiknanleg - Spuni og þolinmæði
Það erfitt að halda athygli þess í lengri tíma - við erum að tala um undir mínútu í sumum tilfellum. Hér er hraðinn á þeim orðinn það mikill að foreldrar og ljósmyndari eru á tánum og enda oft sveitt eftir myndatökuna :).
Þetta eru mest krefjandi myndatökurnar bæði fyrir ljósmyndara og foreldra, því flókið er að dekstra börn á þessum aldri og er óhætt að segja að þau eigi erfitt með að fylgja leiðbeiningum foreldra sinna. Börn eru orkumikil en ekki mjög þolinmóð, og því getur myndatakan orðið soldið óútreiknanleg.
Hér er mikilvægt fyrir foreldra að vera með væntingar í samræmi við það. Ef þau hafa ákveðna uppstillingu, sérstök fataskipti eða önnur smáatriði í huga, þá þurfum við að vera tilbúin að skipta um plan, sýna æðruleysi og spila myndatökuna eftir eyran.
Lykilatriðið er að myndatakan sé á forsendum barnsins og það fái að vera eins og það er á þeim tímapunkti. Myndirnar verða þar af leiðandi minna uppstilltar og meira einlægar :)
Fyrsta árið
Það getur verið gaman að sjá þróun barnsins á fyrsta árinu, jafnvel frá meðgöngu, og prenta út í bók eða sem safn ljósmynda á vegg. Hér fyrir neðan má sjá einn yndislegan dreng á sínu fyrsta ári, á meðgöngu, 3 mánaða, 5 mánaða og 9 mánaða.
Ég vona að þetta hjálpi þér að vita við hverju má búast, hvað er skemmtilegt og hvað þarf að hafa í huga fyrir hvert aldursskeið fyrir sig.
Hlakka til að sjá þig og fjölskyldu þína í stúdíóinu einvhertíman :)