Foreldrar - Af hverju að vera með á ungbarnamynd?

Mér þykir ótrúlega vænt um myndir af mér með foreldrum mínum frá því að ég var lítil. Bæði af því að mér þykir svo vænt um þau og af því við höfum breyst mikið síðustu 35 ár. Mér þykir vænt um söguna og breytinguna, og sjá okkur saman þegar ég var pínulítil og þau í rauninni líka.

Upphafið sem við munum ekki eftir

Ég man líka eftir því hvað mér þótti vænt um albúmið sem mamma útbjó af fyrstu árunum mínum, og fletti því oft og mörgum sinnum í gegnum árin. Kannski er það af því að við munum ekki eftir þessum tíma, og kannski því að sem manneskjur höfum við þörf á að skilja og vita hvaðan við komum. Þetta er kafli í sögunni okkar, sem er einstök og mikilvæg.

Því mæli ég eindregið með að fólk taki myndir af sér með ungbarninu sínu. Þegar það er orðið eldra mun það þykja svo vænt um þessar myndir.

Ekki fyrir foreldrana …

Almennt þykir fólki óþægilegt að láta taka mynd af sér og sum forðast það sem heitan eldinn. Í þessum nýja heimi fullum af instagram filterum, erum við mjög meðvituð um hvernig við lítum út á myndum. Oft er auðveldast að vera ekki með á myndinni, því barnið er svo krúttlegt og fallegt og það er alveg nóg. Og við erum svo þreytt, og kannski ekki upp á okkar besta, sérstaklega eftir erfiða fæðingu og svefnlausar nætur. Það er svo skiljanlegt og fullkomlega eðlileg hugsun.

Myndirnar af krílinu svona litlu og fallegu og fullkomnu - þær eru fyrir okkur. En myndirnar af okkur með þeim - þær eru fyrir þau.

Þórdís Reynis ungbarnaljósmyndari í Reykjavík.jpg

… heldur fyrir barnið

En þegar barnið horfir á myndirnar eftir mörg ár, mun það bara sjá foreldri sitt sem þau elska svo mikið. Þau hugsa ekki um hvernig við litum út á þessum tíma, hversu þung eða þreytt við vorum. Bara fólkið sem er þeim kærast í lífinu. Fólkið sem kom því í heiminn, ól það upp og þótti svo vænt um það. Saga þeirra með foreldrum sínum, sjá breytinguna yfir tíma og vekja upp tilfinningar um ást og þakklæti fyrir þetta fólk sem elskar þau út af lífinu og gerði allt fyrir það.
Þannig tilfinningar vakna hjá mér þegar ég sé myndirnar af mér lítilli með foreldrum mínum.

Því hvet ég öll foreldri - láttu taka mynd af þér með barninu þínu, á mismunandi tímum fyrstu áranna. Hvort sem er af fjölskyldu og vinum, eða hjá ljósmyndara. Myndirnar eru dýrgripir barnsins þíns í framtíðinni.

Þetta er ástæða þess að ég hvet þau foreldri sem koma til mín í myndatökur að vera með á nokkrum myndum. Velkomið að hafa samband ef þið hafið frekari spurningar um myndir af foreldrum og ungabörnum.

Previous
Previous

Ungbarnamyndir með allri fjölskyldunni

Next
Next

Besti tími fyrir ungbarnamyndir